Nú fer fóstrið að taka meira til sín
Það styttist í sauðburð og því er að ýmsu að hyggja þegar kemur að fóðrun ánna. Fóstrið fer að taka til sín orku sem einhverju nemur um 6 vikum fyrir burð. 85% af fósturvexti á sér stað síðustu 2 mánuði meðgöngunnar.
Fóðrun þarf að miðast við holdafar ánna, fjölda fóstra og ekki síður hvernig fóðrun eftir burð er háttað. Vanfóðrun leiðir til minni fæðingarþunga lamba og dregur jafnframt úr mjólkurlagni eftir burð. Að sama skapi getur offóðrun leitt til of stórra lamba sem getur orsakað burðarerfiðleika.
Á þessu tímabili er mikilvægt að huga vel að steinefna- og vítamínþörf.
Fóðurþörf ræðst af fjölda lamba
Fóðurþörf eykst í samræmi við fjölda lamba. Þannig er orkuþörf einlembu síðustu vikurnar fyrir burð 50% meiri en til viðhalds. Orkuþörf tvílembu eykst að sama skapi um 70%.
Ef búið er að telja fóstur í ánum er hægt að skipta þeim upp í hópa eftir fóðurþörf. Þannig er hægt að gera betur við þrílembur og halda frekar í við einlembur svo fóstrin verði ekki of stór.
Kjarnfóðurgjöf síðustu vikurnar fyrir burð getur verið nauðsynleg. Einkum þegar heygæði eru léleg. Ekki má heldur gleyma því að próteinþörf eykst eftir því sem lýður á meðgönguna.
Fara þarf varlega í mikla kjarnfóðurgjöf. Ef gefið er umtalsvert magn ætti að skipta gjöfinni í 2-3 skipti yfir daginn.
Gott gróffóður
Síðustu vikurnar fyrir burð er sá tími sem ærnar eiga að hafa aðgang að bestu heyjunum. Auk vaxandi orkuþarfar fer átgeta minnkandi þegar fóstrin stækka.
Átgetan er mismunandi eftir fóðrunar tímabilum og er jafnframt háð aldri og þunga gripa. Almennt má gera ráð fyrir að ær éti um 1,3-1,7 kg þe/dag. Átið getur síðan auðveldlega farið upp í 2,0-2,5 kg þe/dag eftir burð.
Til að uppfylla orku- og próteinþarfir er nauðsynlegt að orkugildið í fóðrinu sé 0,85-0,90 FEm/kg og próteinið um 80-90 g AAT/kg þe. Ef heygæðin duga hinsvegar ekki til að uppfylla orku- og próteinþarfir er nauðsynlegt að huga að viðbótarfóðri.
Síðustu 2 vikurnar
Verulega dregur úr átgetu síðustu 2 vikur meðgöngunnar vegna þess rýmis sem fóstrin taka. Ef heyin eru ekki þeim mun betri er erfitt að uppfylla orku- og próteinþarfir á þessu tímabil.
Örlítil undirfóðrun er í lagi ef ærnar eru í góður fóðurástandi. Neikvætt orkujafnvægi undirbýr ærnar til þess að mjólka af holdum eftir burð. Helst þurfa ærnar að vera í holdstigum 3,50–4,25 2 vikum fyrir burð og að þær falli ekki í holdum sem nemur meira en 0,5 holstigum.
Á þessum tíma er gott að fóðra ærnar á því heyi sem þær fá eftir burðinn. Hentugt er að flokka ærnar eftir burðartíma (sé hann vitaður). Þannig verður fóðrun markvissari og vinna við sauðburð auðveldari.
Heimildir:
Ragnhildur Sigurðardóttir (Ritstj.) 2013. Sauðfjárrækt á Íslandi. Uppheimar.
Avdem, Finn. 2011. Forng af sau og lam. Nortura.
Vipond, J., Morgan, C. & McEvoy, T. (án ártals). Year round feeding the ewe for lifetime production. SAC.