fbpx
Lifandi ger í fóðri mjólkurkúa

Lifandi ger í fóðri mjólkurkúa

Góð byrjun skiptir höfuðmáli

Til að kálfar séu heilbrigðir og vaxi vel er mikilvægt að þeir fái brodd sem fyrst eftir fæðingu.  Fyrstu 1-2 dagana í lífi kálfsins komast mótefni úr broddmjólkinni óskemmd frá þörmum kálfsins yfir í blóðið.
Til að tryggja að magn mótefna í broddmjólkinni sé sem mest þarf kýrin að vera heilbrigð og rétt fóðruð.  Ójafnvægi á örverum í vömbinni skapar óhagstætt sýrustig og getur það leitt til allskyns vandamála, til dæmis klaufsperra, slakari fóðurnýtingu, lægri mjólkurnyt og veikara ónæmiskerfis.

Í vömb jórturdýra finnast fjöldi örvera sem gagnast dýrinu í meltingu og fóðurnýtingu.  Hlutfall örvera stjórnast af mörgum utanaðkomandi þáttum og lifa örverurnar á mismunandi fæðu og framleiða mismunandi fitusýrur.  Örverurnar í vömbinni eru það sem gerir jórturdýrum kleift að brjóta niður og nýta einföld köfnunarefnifssambönd og tréni.  Örverurnar framleiða mismunandi fitusýrur og fyrir vikið er æskilegt að jafnvægi þeirra raskist ekki mikið.

Lágt sýrustig í vömbinni til lengri tíma hefur slæm áhrif

Sýrustig vambar lækkar hratt þegar fóðrað er á mikið af auðleystum kolvetnum (eða ef skortur er á tormeltari kolvetnum).  Lægra pH þýðir aukning í bakteríunni Streptococcus bovis sem framleiðir mjólkursýru og lækkar þar með sýrustigið enn frekar.  Upptaka á mjólkursýru er ekki jafn góð og á ákjósanlegri fitusýrum, hún hefur því þau áhrif að pH lækkar enn frekar.

Of lágt sýrustig í vömb getur leitt til dauða en oftast veldur það SARA (sub-acute ruminal acidosis).  SARA er röskun á vambargerjun sem einkennist af löngum tímabilum þar sem pH er of lágt (undir 5,2-5,6).  Erfitt er að greina SARA og oftast líður það hjá án þess að uppgvötast.  Þegar sýrustigið er of lágt í lengri tíma getur það fækkað tegundum örvera í vömbinni og við það verður erfiðara fyrir vömbina að viðhalda jafnvægi.  Þar af leiðandi geta afleiðingarnar verið varanlegar og er þá dýrið líklegra til að lenda í þessu ójafnvægi aftur.

Hvernig hjálpar lifandi ger?

Það var talið að vömbin væri súrefnissnautt umhverfi, en við nánari athugun kom í ljós að ávallt er eitthvað súrefni til staðar.  Gerið bindur það súrefni sem er til staðar í vömbinni og skapar þannig betra umhverfi fyrir loftfælnar örverur sem brjóta niður trefjar.  Þær bakteríur sem eru ekki jafn viðkvæmar fyrir súrefni og framleiða mjólkursýru fá þá meiri samkeppni sem þýðir minni mjólkursýruframleiðsla og hærra pH.  Þegar kýr eru úti á beit þá er minni þörf á gerinu, þar sem gras hefur einnig þá hæfni að binda súrefni í vömbinni.

Með því að hafa þessi áhrif á överuflóruna nær gerið að jafna sýrustigið í vömbinni og bæta fóðurnýtingu.  Örverurnar framleiða meira af própíónsýru, það verður minni metanframleiðsla, lægra magn ammóníaks og auðmelt kolvetni hafa minni áhrif á sýrustigið.  Hjá kúm sem eru með háa mjólkurnyt getur dýrið átt erfitt með að viðhalda blóðsykri, en lifrin myndar glúkósa úr própíonsýru og er hún því nauðsynleg í þeim tilgangi.

Rannsóknir hafa sýnt fram á gagnsemi þess að gefa lifandi ger með fóðri

Þegar sýrustigið verður stöðugara dregur það úr hættu á súrri vömb.  Nýting á sterkju og meltanleiki trénis eykst, hlutfall fitusýra verður hagstæðara, frumutala í mjólk lækkar og nyt eykst.  Almennt heilbrigði verður betra og framleiðir þá líkaminn meira magn mótefna sem berast svo með broddmjólkinni til kálfsins.  Ef kálfurinn fær ekki næg mótefni getur það valdið niðurgangi sem þýðir minni þyngdaraukning, aukinn kostnað og meiri líkur á afföllum.  Það mælist líka aukið fituhlutfall í mjólkinni.

Sömu áhrif voru ekki greinanleg ef gerið var ekki lifandi og mælast meiri áhrif eftir því sem meira magn lifandi gers er gefið.  Einnig dregur lifandi ger úr pH-falli sem kemur eftir át.

Ger þarf að gefa á hverjum degi til að viðhalda þessum áhrifum, en það fer út með meltingunni.  Yea-Mix Iceland er bætiefnablanda fyrir mjólkurkýr sem inniheldur lifandi ger.

Heimildir:
Sveinn Guðmundsson. (1996). Hraustar kýr, um fóðrun, fjós og forvarnir í mjólkurframleiðslu. Reykjavík: Steindórsprent-Gutenberg.
Wallace, J. (á.á.). The big quest: How does live yeast work in animal feed?  http://www.allaboutfeed.net/
Simon, E. (á.á.). Live yeast in breeding animal diets helps offspring.  http://www.allaboutfeed.net
Lorenz, I. (2016).  Subacute Ruminal Acidosis.  http://www.msdvetmanual.com/digestive-system/diseases-of-the-ruminant-forestomach/subacute-ruminal-acidosis

 

Submit a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Afhending

Hér erum við

Hafa samband